Sunnudagur, 14. desember 2008
Verndarengill Götusmiðjunnar í jólapakkann
Götusmiðjan hefur nú hafið sölu á Verndarenglinum, líkt og gert hefur verið s.l. ár. Verndarengill Götusmiðjunnar er seldur í minningu þeirra sem hafa lotið í lægra haldi í baráttunni við vímuefnin.
Verndarengillinn kemur í fallegri gjafaöskju sem er unnin og sett saman af nemum Götusmiðjunnar en allt andvirði af sölu engilsins rennur óskiptur til starfseminnar og til áframhaldandi uppbyggingar á aðstöðu fyrir unglinga sem eiga ekki í nein önnur hús að venda. Verndarengillinn kostar 1.250 krónur. Verndarengillinn er lítið handgert skart úr tini sem hannaður er með það fyrir augum að hann fari vel sem næla. Mummi í Götusmiðjunni bjó sjálfur til engilinn og bræddi með nemum úr smiðjunni, til þess eins að afla tekna fyrir starfsemi Götusmiðjunnar.
Láttu Engil fylgja jólapakkanum! Verndarengill Götusmiðjunnar er skemmtileg viðbót í jólapakkann. Um leið og þú gefur fallega gjöf styrkir þú gott málefni og tryggir áframhaldandi uppbyggingu Götusmiðjunnar.
Verndarengillinn kostar 1.250 krónur.
Smelltu hér ef þú vilt styrkja Götusmiðjuna eða hér ef þú vilt kaupa Verndarengil
Götusmiðja hóf í dag auglýsingaherferð á Facebook, sem nú nær til um 100.000 einstaklinga á landinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. nóvember 2008
Myndir frá Götusmiðjukvöldinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. nóvember 2008
Þakklæti er góð tilfinning...
En það er akkúrat sú tilfinnig sem er búin að vera ráðandi hjá mér eftir að Götusmiðjan var valin af Casa Herbalife sem styrkþegi. Kvöldið okkar á Grand hótel þar sem fjöldi listamanna tróðu upp var í einu orði frábært. Herbalife á Íslandi stóð fyrir því og lætur Götusmiðjuna njóta góðs af hagnaði miðasölu.
Önnur rós í hnappagat Herbalife bæði fyrir snilldar skipulag og skemmtilega stemmingu. Þeir listamenn sem komu fram Dr. Mister, Erpur, Sign, Raggi Bjarna og Þorgeir, Friðrik Ómar og Stefán Hilmars kunna þetta og stemmingin eftir því góð.
Þegar samstarfstyrkurinn var afhentur Götusmiðjunni fékk ég gamla skjólstæðinga sem eru að fóta sig í lífinu upp á svið með mér. Þar sem ég stóð á sviðinu með krökkunum mínum var ég að rifna úr stolti þegar ég tók við samstarfstyrknum fyrir hönd þeirra ungmenna sem eiga eftir að njóta hans.
Fyrir hönd nema og starfsfólks Götusmiðjunnar segi ég takk fyrir stuðninginn og hlakka til samstarfs með þessu frábæra fólki sem gera Herbalife.
Takk, takk
Kveðja Mummi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 22. nóvember 2008
Frá krökkunum í tónlistarsmiðjunni
Í Götusmiðjunni er rekin margvísleg starfsemi. Eins og má sjá á vefsvæði smiðjunnar byggir meðferðin m.a. á s.k. "smiðjum". Smiðjurnar eru 4: hestasmiðja, listasmiðja, mótorsmiðja, tónlistarsmiðja og tölvusmiðja.
Krakkarnir í listasmiðjunni takast á við margvísleg verkefni; málningu, tónlist, skrif og fleira. Tónlistarhópurinn var að senda frá sér nýtt lag sem heitir Það er líf. Lagið er eftir einn af skjólstæðingum Götusmiðjunnar og einnig textinn.
Lagið er samið, flutt og hljóðritað í Götusmiðjunni nú í nóvember. Söngvararnir eru nú þegar í meðferð í Götusmiðjunni og verður ekki greint frá nafni þeirra að svo stöddu. Allir aðrir sem að laginu koma; hljóðfæraleikarar, upptökufólk og aðrir sem lögðu hönd á plóg eru núverandi eða fyrrverandi skjólstæðingar
Öllum er frjálst að hlaða niður laginu til eigin nota. Smellið á slóðina hér að neðan til að ná í "Það er líf" - samið, sungið og tekið upp í Götusmiðjunni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Laugardagur, 22. nóvember 2008
CASA HERBALIFE velur Götusmiðjuna til samstarfs
Myndin er tekin föstudaginn 21. nóvember s.l., við formlega opnun Casa Herbalife í Götusmiðjunni. Aftari röð frá vinstri: Óskar Finnsson, Jakob Örn Sigurðarson (KR), Jón Arnór Stefánsson (KR), Jón Óttar Ragnarsson. Fremri röð frá vinstri: Margrét Hrafnsdóttir, Hrafn Ágústsson, Guðmundur Týr Þórarinsson (Götusmiðjan), Wynn Roberts (EMEA region senior vice president and managing director), Kristín Hafdís Ottesen (Götusmiðjan), Børre Gjersvik (Country Director Herbalife Nordic Countries). Þeir sem ekki er merktir sérstaklega eru Sjálfstæðir dreifingaraðilar og "International Presidents Team Members" í Herbalife
Götusmiðjan hefur verið valin eftir mikla skoðun stjórnar Herbalife Family Foundation í höfuðstöðvunum í Los Angeles í þetta samstarf og mun þetta þýða umtalsverða fjármuni til reksturs smiðjunnar á næstu árum í formi fastra árlegra greiðslna og uppbyggingar við heimilið.
Með framlaginu er stutt við það starfs sem nú er í Götusmiðjunni og rennir það stoðum undir stækkun og enn betri aðbúnað fyrir hennar skjólstæðinga. Er það von CASA HERBALIFE að starfsemin muni áfram vaxa og dafna og Götusmiðjan sinni sínum skjólstæðingum vel, aðstoði við heilbrigðan lífsstíl og að sem flest draumaverkefni eins og upptökuver, tómstundaherbergi og annað uppbyggjandi verði að veruleika.
Herbalife Family Foundation rekur nú yfir 36 CASA HERBALIFE um heiminn í dag og verður CASA HERBALIFE á Íslandi það fyrsta á Norðurlöndum.
Götusmiðjan er þakklát fyrir þakklát og stolt af þessum stuðningi CASA HERBALIFE og einmitt núna kemur þessi stuðnignur á hárréttum tíma og ekki slæmt að tengjast þessum gjöfula sjóð fjármuna sem safnað er á heimsvísu. Gæti ekki komið á betri tíma.
Upplýsingar um Casa Herbalife er að finna inná herbalifefamilyfoundation.org
Fleiri myndir frá afhendingu styrksins frá því föstudaginn eru á þessari slóð.
Vefur Götusmiðjunnar er á http://www.gotusmidjan.is/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 17. nóvember 2008
Nýtt merki - ný ásýnd Götusmiðjunnar
Götusmiðjan hélt upp á 10 ára afmæli sitt í sumar. Við það tækifæri var ákveðið að skapa smiðjunni nýja ásýnd. Ámundi Sigurðsson, grafískur hönnuður tók að sér að leggja grunn að nýju merki Götusmiðjunnar.
Ámundi gerði fjölmargar tillögur að nýju útliti, hverja aðra betri en markmiðið var að krakkarnir sjálfir hefðu áhrif á þá tillögu sem endanlega yrði valin.
Það merki sem Götusmiðjan kynnir hér er einmitt niðurstaðan af vali krakkanna sjálfra. Þau ákváðu merkið sín á milli og mörkuðu þannig sjálf stefnuna sem götusmiðjan ætlar að fylgja á næstu misserum og árum.
Götusmiðjan þakkar Ámunda Sigurðssyni fyrir veitta aðstoð og ómetanlega vinnu við nýja ásýnd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 17. nóvember 2008
Götusmiðjan komin af stað á netinu
Götusmiðjan hefur tekið bloggið í þjónustu sína. Undanfarið hefur verið unnin ný stefna fyrir starfsemina sem snýr að því að nýta betur þennan miðil til að koma á framfæri brýnum málefnum og auka sýnileika Götusmiðjunnar. Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja hafa gert það að verkum að þetta hefur tekist og á komandi vikum og mánuðum verður leitast við að miðla eins miklu og tækifæri gefst til hér á síðunni.
Bloggsvæðið verður notað sem fréttamiðill og heimasvæði Götusmiðjunnar, sem almennt vefsvæði sem inniheldur beinar upplýsingar um Götusmiðjuna, starfsmennina og fleira.
Fylgstu með okkur hér... við erum komin til að vera, líkt og s.l. 10 ár!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)